Garnaveiki

Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur, sem leggst á öll jórturdýr: sauðfé, geitur, nautgripi og hreindýr. Orsökin er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Hún veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í umhverfinu mánuðum saman. Bakterían er mjög harðger, þolir t.d. mörg sótthreinsiefni.  Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni. Meðgöngutími í fé er 1-2 ár eða lengri. Meðgöngutími í kúm er 2 ½ ár eða lengri.

Smitdreifing

Smitdreifing milli bæja verður fyrst og fremst við flutning á sýktum gripum frá garnaveikismitaðri hjörð. Einnig getur smit borist milli bæja með óhreinum skófatnaði. Ekki er hægt að útiloka smitdreifingu með heyi og/eða samnýtingu landbúnaðartækja. Nagdýr og vissar fuglategundir geta hýst bakteríuna og verið smitberar án þess að sýna sjúkdómseinkenni.

Innan hjarðar verður smitdreifing frá fullorðnum dýrum og frá umhverfinu yfir í ungviði, einkum á húsi með saurmengun í drykkjarvatni og jötum, síður úti í haga nema smitmagn í umhverfinu sé þeim mun meira.

Næmi gagnvart smiti minnkar með aldrinum. Fóstur og ungdýr upp að fjögurra mánaða aldri eru móttækilegust. Eldri dýr smitast síður þó svo að þau geti sýkst ef smitálagið er mikið.

Það er því gríðarlega mikilvægt að sótthreinsa alla snertifleti eins oft og möguleiki er til þess að koma í veg fyrir smit og smitdreifingu.